Fræbrauð

Mér finnst fátt betra en nýbakað brauð. Þetta fræbrauð er glútenlaust, bráðhollt, stútfullt af næringu og trefjum og þar að auki dásamlega bragðgott. Brauðið er með fjölbreyttum fræjum og hnetum og er ekkert hvítt hveiti í uppskriftinni heldur hafrahveiti og kókoshveiti (eða annað glúteinlaust mjöl). Brauðið er verulega seðjandi en tvær brauðsneiðar gefa mikla og góða orku inn í daginn.

 

 

 

Mér finnst glútenlaus bakstur oft verða þurr og molna en til að forðast það þá reyni ég að nota minna af glútenlausu hveiti og nota frekar glútenlaust haframjöl sem ég set í blandara og bý til mjöl úr. Til að binda brauðið enn betur saman blanda ég chia-mjöli við vatn en þá þykknar chia-mjölið og bindur hráefnin vel saman. Ég nota einnig eplaedik í uppskriftina en þannig fær brauðið góða og jafna lyftingu (engar áhyggjur, bragðið af því finnst ekki þegar búið er að baka brauðið). Mér finnst gott að setja örlitla sætu út í deigið, t.d. hlynsýróp eða eplamauk en það þarf þó ekki.

 

 

Það má leika sér með ólík fræ og hnetur í uppskriftina. Ég nota oftast hörfræ, sesamfræ, sólblómafræ og graskersfræ en af hnetum set ég t.d. möndlur og valhnetur. Einnig má breyta um glúteinlaust mjöl og nota t.d. möndlumjöl eða kókoshveiti. Uppskriftin nægir í eitt lítið brauð en mér finnst oft gott að tvöfalda hana því brauðið klárast svo hratt. Brauðið geymist nokkuð vel og er mjög gott að setja það í brauðrist.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 2 dl hafrahveiti
  • 1,5 dl glúteinlaust mjöl, t.d. kókoshveiti, möndlumjöl eða glúteinlaust hveiti
  • 1 tsk chiamjöl
  • 2 dl heitt vatn
  • 2 dl fræ, t.d. (hörfræ, sólblómafræ, graskersfræ og sesamfræ)
  • 1 dl hnetur að eigin vali, smátt saxaðar
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 msk eplaedik
  • 1 tsk hlynsýróp, eða önnur sæta
  • salt

Aðferð:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180°.

  • Ef þið eigið ekki hafrahveiti er það fljótgert með því að setja haframjöl (glútenlaust ef vill) í matvinnsluvél og blanda þar til það verður að fíngerðu mjöli. Í uppskriftinni eru notaðir 4 dl af hafrahveiti en það jafngildir um 4 dl af haframjöli.

  • Chiamjöl er gert með sama hætti. Chia fræ eru sett í blender og blandað þar til þau verða að dufti.

  • Blandið chiamjöli við 1 dl af vatninu. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur og þykkna.

  • Blandið saman þurrefnunum. Hrærið því næst vatninu, hlynsýrópinu og eplaedikinu saman við.

  • Setjið deigið í brauðform sem er þakið með bökunarpappír eða smurt með olíu. Mér finnst fallegt að strá graskersfræjum yfir deigið.

  • Bakið í 50-60 mín við 180°.

  • Gott er að láta brauðið kólna í 20-30 mín þar til það er skorið.

2 Comments

  • Jóhanna Bárðardóttir

    01/14/2022 at 11:44 am

    Sæl,
    ég var að prófa að baka brauði, mjög bragðgott en pínuklesst. Getur þú ráðlagt mér með það?
    Er nauðsynlegt að setja chiafræin í blender 1 tsk. er ekki mikið?
    kveðja,
    Jóhanna

    1. Grænkerar

      01/26/2022 at 12:03 pm

      Hæhæ,
      það getur verið að glútenlausa mjölið valdi því. Prófaðu að nota aðra gerð, til dæmis blöndu af glútenlausu mjöli og möndlumjöli og jafnvel örlítið meira. Ef chia-fræin eru möluð í blandara og mjölinu blandað við vatn verður til svokallað chia-egg sem bindur þurrefnin vel saman. Ef fræin eru ekki blönduð virka þau ekki jafn vel og þá ráðlegg ég að setja talsvert meira af þeim 🙂

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift