Brownies

Hér er uppskrift að bráðhollum og ofurdjúsí glútenlausum brownies sem eru í algjöru uppáhaldi hjá mér. Í hvert sinn sem ég þarf að útbúa köku, hvort sem það er fyrir veislu, fjölskylduna eða bara mig þá er þetta fyrsta kakan sem mér dettur í hug og eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er hún fljótgerð og er hægt að nota eingöngu matvinnsluvélina. Í öðru lagi hentar uppskriftin nokkurn veginn öllum því hún er vegan, glútenlaus, holl og sykurlaus. Í þriðja lagi er hún bara fáránlega góð!

Það tekur um 10 mínútur að gera þessar brownies (5 mínútur ef maður er extra snöggur) og er hún um 10-20 mín í ofninum. Ég mæli með að baka kökuna ekki of lengi en mér finnst hún best þegar hún er mátulega blaut. Þegar kakan kólnar þá stífnar hún aðeins og verður áferðin unaðsleg.

 

 

Ef ég er í mikilli tímaþröng þá sleppi ég því að saxa súkkulaðið og valhneturnar og set það í matvinnsluvélina í lokin. Súkkulaðið set ég í um 10 sekúndur eða þar til það er í bitum á stærð við súkkulaðidropana á myndinni til hliðar.  Rétt í lokin set ég valhneturnar í örskamma stund en þær mega vera í tiltölulega grófskornum bitum. Ég mæli þó frekar með að saxa súkkulaðið og valhneturnar og hræra út í með sleif í lokin.

 

 

 

Mjölið sem er notað í kökuna er glútenlaust hafrahveiti. Hafrar eru náttúrulega glútenlausir en verða fyrir glútenmengun í framleiðsluferlinu. Fyrir þá sem eru með slæmt glútenóþol eða ofnæmi er því mikilvægt að nota glútenlaust haframjöl en fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir glúteni ætti venjulegt haframjöl að sleppa. Hafrahveiti finnst mér er algjör snilld en það er gert með því að setja glútenlaust haframjöl í blender í 10-20 sek. Þannig fæst hollustan, trefjarnar og prótínið úr höfrum, án grófleikans. Mér finnst hafrahveiti einnig koma betur út í flestum uppskriftum heldur en hefðbundið glútenlaust mjöl. Ég geri reglulega slatta af hafrahveiti í einu og á til í krukku svo fljótlegt sé að grípa í það.

 

Það er algjör snilld að skella í þessa köku á seinustu stundu fyrir matarboð eða ef maður vill skyndilega djúsí eftirrétt. Hún vekur alltaf lukku, hjá börnum jafnt sem fullorðnum og ef svo ólíklega vill til að það verði afgangur er ekki síðra að borða kökuna kalda daginn eftir.

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 12 ferskar döðlur, steinar teknir úr
  • 2 dl möndlusmjör
  • 1/2 dl kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • 1/2 banani
  • 2 dl plöntumjólk, t.d. sojamjólk eða möndlumjólk
  • 2,5 dl glútenlaust hafrahveiti
  • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 msk kakóduft, má sleppa fyrir minna súkkulaðibragð
  • 1-1,5 dl dökkt súkkulaði, saxað
  • 1,5 dl valhnetur, saxaðar
  • salt

Aðferð:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180°.

  • Setjið döðlur, möndlusmjör, kókosolíu, banana og plöntumjólk í matvinnsluvél þar til það verður að mauki.

  • Bætið út í matvinnsluvélina glútenlausu hafrahveiti, vínsteinslyftidufti, vanilludropum, kakódufti og salti og blandið í smá stund. Glútenlaust hafrahveiti er gert með því að setja glútenlaust haframjöl í blender í 20-30 sek.

  • Ef búið er að saxa súkkulaðið og valhneturnar má bæta því út í með sleif í lokin en ef það er ósaxað er hægt að setja það út í deigið í matvinnsluvélinni. Þá er best að setja súkkulaðið fyrst og blanda í nokkrar sekúndur og bæta loks valhnetunum út í og blanda í 3-5 sek en þær mega vera grófskornari.

  • Hellið deiginu í smurt form og bakið í 10-15 mín. Það má baka kökuna lengur en mér finnst hún best þegar hún er mjúk að innan en hún stífnar fljótt við kólnun og fær góða áferð.

  • Gott er að bera kökuna fram með ferskum jarðaberjum og vanilluís (t.d. frá Oatly) eða vegan rjóma (t.d. frá Soyatoo)

Gott að hafa í huga:

  • Medjool döðlum má skipta út fyrir ferskar döðlur eða þurrkaðar döðlur sem eru lagðar í bleyti í 1-2 klst.
  • Glúteinlausu hafrahveiti má skipta út fyrir annars konar hveiti

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift