Banana- og kaffiís

Hver segir að ís þurfi að vera óhollur? Þessi banana-kaffiís er allavega stútfullur af næringu, hollur, bragðgóður og að sjálfsögðu vegan. Uppistaðan í ísnum eru frosnir bananar en þegar frosnir bananar eru malaðir í matvinnsluvél eða öflugum blender verður úr ótrúlega léttur, ljós og creamy bananaís. Á ensku er þessi tegund af ís (þar sem bananar eru uppistaðan) kölluð nicecream.

Ísinn er gerður úr frosnum banönum og kaffi sem hellt er í klakabox. Ég notaði hafrakaffið frá Land&Tide og útbjó tvær tegundir af ís, annars vegar úr hafralatte og hins vegar úr haframocha. Út í ísinn má svo bæta ýmsu öðru góðgæti, svo sem uppáhalds hnetusmjörinu, súkkulaðibitum eða kakódufti.

Athugið að ekki allar vélar ráða við frosna banana og getur þá verið sniðugt að leyfa þeim að þiðna aðeins og bæta jafnvel við vökva á móti. Áferðin verður ekki alveg eins skemmtileg en bragðið ljúffengt. Til að ná fram betri þykkleika má hella ísnum í form og setja í frysti. Passið svo bara að hræra reglulega í ísnum til að brjóta niður alla kristalla sem myndast.

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Grunnuppskrift:

  • 3 bananar, frosnir
  • 150 ml kaffi, t.d. hafralatte eða mocha

Annað góðgæti:

  • 1-2 ferskar döðlur
  • 2 msk gott hnetusmjör, ég notaði frá Mindful Bites
  • 2 tsk kakóduft

Aðferð:

Undirbúningur:

  • Skerið banana niður og setjið í frysti.

  • Hellið kaffinu í klakabox og frystið.

Ís:

  • Setjið bananana í matvinnsluvél eða öflugan blender og blandið þar til úr verður léttur, mjúkur og þykkur ís.

  • Bætið kaffiklökunum út í (ásamt öðru góðgæti ef vill) og blandið áfram.

  • Gott er að borða ísinn beint úr matvinnsluvélinni/blandaranum en einnig er sniðugt að setja hann í ílát og frysta. Passið að taka ísinn reglulega út fyrsta klukkutímann og hrærið í honum til að brjóta alla ískristalla sem myndast.

  • Ísinn er æðislegur með heitri súkkulaði- eða karamellusósu og rjúkandi kaffibolla.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift