Avókadópítsa

Hér er uppskrift að sumarlegri, ferskri og öðruvísi pítsu sem kemur virkilega á óvart. Systir mín hefur gagnrýnt mig fyrir að kalla þetta pítsu og vill hún að ég kalli þetta hrökkkex með salati en ég er ósammála því og stend með minni pítsu (þó svo að hrökkkex með salati sé ekki svo fjarri lagi). Ég get fullyrt að þessi pítsa er virkilega djúsí en kasjúhnetusósan kemur í stað osts og úr verður virkilega skemmtilegur réttur sem ætti ekki að valda neinum vonbrigðum.

Hægt er að gera pítsuna að hráfæðispítsu með því að baka botninn í þurrkofni en ég bý ekki svo vel að eigaþurrkofn og er þetta því „næstum-hrápítsa“. Pítsuna má einnig gera glútenlausa með því að nota glútenlaust mjöl eða glútenlaust hafrahveiti í botninn. Annars er hún að sjálfsögðu vegan, sykurlaus og bráðholl. Þessi uppskrift er nógu stór fyrir tvo botna eins og eru sýndir hér en vanalega er ein slík pítsa á mann mátulegt magn.

Ég hef margoft gert þessa pítsu og komist að þeirri niðurstöðu að áleggin í þessari uppskrift mynda fullkomna heild. Avókadóin skapa mjúkt undirlag en jarðaberin og klettasalatið mynda einhversskonar jafnvægi milli sætu og beiskju. Mér finnst rauðlaukur, paprika og furuhnetur koma skemmtilega út en hægt er að leika sér með önnur álegg svo sem mangó, kirsuberjatómata og salthnetur eða graskersfræ.

Pítsan er fljótgerð miðað við aðrar heimagerðar pítsur því meðan botninn bakast er hægt að skera grænmetið og búa til sósuna. Ég geri þessa pítsu oft yfir vor- og sumartímann og vekur hún alltaf mikla lukku en hún passar fullkomlega með glasi af hvítvíni í góðra vina hópi.

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botn:

  • 3 dl spelt, gróft og fínt
  • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 dl volgt vatn
  • salt

Sósa:

  • 1 dl kasjúhnetur
  • 2 dl vatn
  • 1/2 msk næringarger
  • 1 tsk hlynsýróp
  • 1-2 tsk sítrónusafi
  • salt

Álegg:

  • Grænt pestó
  • Avókadó
  • Rauð paprika
  • Rauðlaukur
  • Klettasalat
  • Jarðarber
  • Furuhnetur, ristaðar

Aðferð:

Botn:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180°.

  • Blandið þurrefnunum vel saman og bætið vatninu út í. Bætið vatni eða spelti við eftir þörfum.

  • Fletjið deigið þunnt út. Mér finnst fallegast að gera tiltölulega litlar, hringlaga pítsur en vel má gera eina stóra, kassalaga pítsu.

  • Setjið deigið á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið í um 10 mín.

Sósa:

  • Setjið öll hráefnin í blender og blandið þar til silkimjúkt. Ef kasjúhneturnar hafa ekki verið lagðar í bleyti getur þetta tekið smá tíma en þá er best að setja blenderinn af stað, bíða svo í nokkrar mínútur og setja hann svo aftur af stað. Gott er að smakka sósuna til og bæta við næringargeri, sítrónusafa og hlynsýrópi eftir smekk.

Álegg:

  • Þegar botnarnir er komnir úr ofninum má smyrja á þá grænu pestói.

  • Því næst er avókadóinu raðað þannig að það þeki botnana. Síðan er papriku, rauðlauk og klettasalati raðað ofan á.

  • Sósunni er dreift yfir klettasalatið.

  • Loks er ferskum jarðaberjum raðað á pítsuna og ristuðum furuhnetum dreift yfir.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift